Þú mátt leita - en bara ekki svona oft...

isnicÞar sem ég er á kafi í stjórnarstörfum fyrir björgunarsveitina mína í Garðinum þá fékk ég úthlutað því verkefni á félagsfundi í gærkvöldi, mánudagskvöld, að sækja um lén fyrir björgunarsveitina okkar, þannig að við gætum sett um vefsíðu og tölvupósta. Þar sem ágætt sundfélag heitir Ægir og hefur lénið aegir.is og ægir.is, þá vandast málið. Eftir að hafa slegið upp á netinu nokkrum lénum sem koma til greina, þá fór ég inn á síðuna hjá ISNIC, Internet á Íslandi, til að kanna hvort eitthvað af þeim lénum væru á lausu sem mér fannst koma til greina fyrir sveitina okkar.

Er með niðurskrifaðan lista yfir hin ýmsu lén sem ég hafði látið mér detta í hug. Eitthvað af þeim eru greinilega frátekin þó svo engar síður séu á bakvið þau. Hins vegar ákvað ISNIC að skella í lás á mig, ef svo má segja. Aðgangur minn að "Whois:" leitarhlutanum var sem sagt takmarkaður tímabundið. Upp kemur gluggi sem segir:

Aðgangur tímabundið takmarkaður

Aðgangi þínum að uppflettingu í rétthafaskrá ISNIC hefur verið lokað, tímabundið.

Því miður hefur reynst nauðsynlegt að loka tímabundið á aðgang frá tölvu þinni (xxx.xxx.xxx.xxx) vegna óeðlilegs fjölda uppflettinga eða annara óleyfilegra aðgerða frá þessari IP tölu. Reyndu aftur síðar.

Ég veit ekki alveg hvernig ég á að skilja þetta. Ég mátti greinilega fletta upp á vefnum hjá þeim, en bara ekki svona oft! „...vegna óeðlilegs fjölda uppflettinga eða annara óleyfilegra aðgerða". Ég hef örugglega verið að kafsigla ISNIC með því að slá inn nokkur mismunandi „óskalén" og kanna hvort einhver væri skráður eigandi þeirra. Fékk skyndilega þá tilfinningu að ég væri að brjótast inn í tölvukerfið þeirra, við þá einföldu aðgerð að kanna hvort nokkur lén væru á lausu. Veit ekki hvenær tímabundinni lokun á mig verður aflétt. Ég á ennþá eftir að prófa nokkur lén. Kannski að ég sendi þau bara til þeirra í tölvupósti og spyrjist fyrir um þetta í pósti, í stað þess að setja tölvukerfið hjá ISNIC á hvolf svona á nótttunni...

- Vona svo sannarlega að google.com taki ekki svona á móti mér þegar ég þarf að leita á síðunni þeirra næst!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband