Róa sjómenn í flugstöðinni og landa í Fríhöfninni?

sandgerdishofnÉg á svolítið erfitt með að skilja upphæðirnar sem sveitarfélögin á Suðurnesjum fengu frá félagsmálaráðherra og greint er frá í fréttinni hér að neðan og má finna á www.vf.is. Tek sem dæmi Sandgerðisbæ. Hann fær rétt um eina milljón króna vegna tekjumissis vegna tímabundins samdráttar í aflamarki þorsks. Þetta eru um það bil hásetalaun tveggja í mánuð. Hvað ætlar svo Sandgerðisbær að gera við öll herlegheitin. Deila þeim niður á fjölskyldur sjómanna í Sandgerði sem ekki mega veiða þorsk? Hef grun um að upphæðin verði tíkarleg! Hitti bæjarstjórann í Sandgerði í gær og óskaði honum til hamingju með milljónina. Hann hafði ekki fengið fréttirnar og varð undrandi. Skil hann vel. Hann segir að svörin sem hann fái séu þau að Sandgerðingar hafi flugstöðina. Ekki róa sjómenn þar, nema þeir eigi að landa í Fríhöfninni. Hvað á annars að gera við milljónina frá "frúnni í féló?" er spurt í Sandgerði í dag.

Fréttin af www.vf.is:

Félagsmálaráðherra hefur ákveðið úthlutun á 250 milljónum króna til að koma til móts við þau sveitarfélög sem verða fyrir tekjumissi vegna tímabundins samdráttar í aflamarki þorsks. Grindavíkurbær fær mest sveitarfélaga á Suðurnesjum í þetta skipti, rúmlega 35 milljónir króna. Samtals koma um 45 milljónir króna til Suðurnesja að þessu sinni. Um er að ræða fyrsta hluta af þremur en ríkisstjórnin hafði ákveðið að veita samtals 750 milljónir til þessa verkefnis á þremur árum og er það hluti af mótvægisaðgerðum vegna niðurskurðar í aflaheimildum á þorski.

Listinn yfir úthlutunina til sveitarfélaga á Suðurnesjum er eftirfarandi:

Reykjanesbær 919.205 krónur
Grindavíkurbær 35.111.250
Sandgerðisbær 1.033.269
Sveitarfélagið Garður 6.512.962
Sveitarfélagið Vogar 1.116.599

Myndina tók vinur minn Reynir Sveinsson og er hana að finna í myndarlegu myndasafni á vef Sandgerðisbæjar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband